Monday, July 9, 2012

Oft veltir lítil þúfa....


„Hvað get ÉG gert til að bæta heiminn?“ Þetta er spurning sem margir spyrja sig. Og hugsa svo í kjölfarið: „Ekkert. Ég er of lítil til að hafa áhrif. Hvað getur ein manneskja gert til að breyta heiminum“? 

Það er auðvelt að fyllast örvæntingu þegar maður horfir á fréttir og les blöðin. Vandamálin virðast yfirþyrmandi og maður hefur oft ekki mikla trú á að maður geti breytt einhverju þar um. En þá er gott að hafa gömul sannindi í huga: Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. 

Hver manneskja getur haft meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir. Mahatma Ghandi eru eignuð þessi orð: „Be the change you want to see in the world“ (Slæm og bein þýðing: "Vertu breytingin sem þú vilt sjá á heiminum"). 

Viltu að heimurinn sé vinalegri og afslappaðari? Vertu þá vinalegri og afslappaðari. Óskarðu þess að fólk væri heiðarlegt og duglegt? Vertu þá heiðarlegur og duglegur. Með þessu hefur þú jákvæð áhrif á alla sem þú umgengst og leggur þar með þitt af mörkum í að bæta heiminn. Ef allir hugsuðu svona, þá myndi heimurinn fljótlega verða betri staður að búa í.

Sunday, July 1, 2012

Síðasta sjálfshjálparbókin sem þú þarft að kaupa?...

Ég er nýlega búinn að lesa þessa frábæru bók. Bókin er byggð á   meðferðarmódeli sem kallast "Acceptance and Commitment Thearpy" (ACT). Í stuttu máli er þetta besta sjálfshjálparbók sem ég hef lesið. Ég er hreinlega ekki viss um að ég muni þurfa að kaupa fleiri slíkar. Ég hugsa að ég muni bara grípa aftur í þessa bók ef mig vantar góð ráð.

En út á hvað gengur ACT?

ACT gengur út frá þeirri forsendu að flest sálræn vandamál sem plaga fólk eigi sér eðlilegar skýringar sem rekja megi til þróunar mannsins. Tilhneigingar okkar til að mála skrattann á vegginn og hafa áhyggjur af öllum sköpuðum hlutum séu eðlilegur hluti af því að vera af tegundinni Homo Sapiens.Það sé útilokað að losna varanlega við þessar tilhneiginar. Sú hugmynd er það sem Russ Harris kallar "happiness trap" eða "hamingjugildra", þ.e. að berja stöðugt höfðinu við steininn í tilraunum til að losna varanlega við "slæmar" tilfinningar svo að maður geti loksins orðið hamingjusamur. Sjálfshjálpariðnaðurinn gengur út á að skaffa fólki hugmyndir og verkfæri til þess arna. Vandamálið er bara að árangurinn er yfirleitt skammvinnur, vegna þess að markmiðið er algerlega óraunhæft.

ACT kennir okkur því að sættast við okkur sjálf og læra að lifa með erfiðum tilfinningum. Aðferðin byggir fyrst og fremst á þessu:

  • Að meðtaka tilfinningaleg viðbrögð sín (Acceptance) og vera "vakandi"
  • Að velja viðbrögð í takt við gildi (Choose a valued direction)
  • Að GERA eitthvað í takt við gildin (Take action)
Þessu aðferð gengur sumsé ekki út á að "hugsa sig út úr vandamálum" eða fara með jákvæðar staðhæfingar til að breyta hugarfari o.s.frv. Notum einfalda líkingu til að útskýra þetta:

Þú liggur í rúminu. Þú telur þig heyra þrusk inni í skáp. Það fyrsta sem þér dettur í hug er að það sé skrímsli í skápnum. Þú verður hrædd og kvíðin. Margar sjálfshjálparbækur myndu segja þér að hugsa málið (Það eru ekki til nein skrímsli!) eða beina athyglinni að einhverju öðru (mér líður vel, mér líður frábærlega, ég er æðislegur). ACT myndi ráðleggja þér að veita tilfinningum þínum athygli. Standa svo upp og kíkja inn í skápinn.

Það er of langt mál að útskýra þessa aðferð frekar í stuttu bloggi, en ég hvet alla sem eru orðnir þreyttir á að glíma við sjálfan sig að ná sér í eintak af þessari bók. Mig grunar að það mætti minnka verkefni sálfræðinga og geðlækna um tugi prósenta ef þessi aðferð væri markvisst kennd í skólum. Hættum að slást við heilabúið í okkur og lærum að umgangast það skynsamlega!

Monday, June 11, 2012

Njóttu ferðarinnar

Hundar njóta ferðarinnar alltaf!

„Mikið verður gaman þegar ég verð búinn að...(fá nýju vinnuna/kaupa draumahúsið/eignast nóg af peningum......)“. Hver hefur ekki fallið í þessa gryfju?

Við frestum gleði og hamingju vegna einhvers markmiðs sem við teljum okkur þurfa að ná til að verða loksins glöð og hamingjusöm. Tökum einfaldað dæmi: 

Móðir er að fara með syni sína tvo í dýragarðinn. Það er klukkutíma akstur á leiðarenda. Eldri drengurinn situr á sætisbrúninni og spyr í sífellu: „Erum við ekki að verða komin!“. Hann gnístir tönnum og tíminn virðist líða afar hægt. Ekki einu sinni ísinn sem hann fékk í sjoppunni veitir neina ánægju. Litli bróðir hans er hins vegar afslappaður og hefur gaman af því að vera í bíltúr. Hann smjattar á ísnum, syngur með útvarpinu, sér beljur á beit, stóra og áhugaverða trukka og vinkar vingjarnlega til stelpunnar í næsta bíl. Hann er bara í skemmtilegum bíltúr með mömmu og stóra bróður. Drengirnir eru á nákvæmlega sama ferðalaginu, en nálgast það með mjög ólíkum hætti. Og hvað gerist svo ef bílinn bilar á miðri leið og þau komast aldrei í dýragarðinn? Þá hefur annar þeirra átt ömurlegan dag á meðan hinn fór í stórskemmtilegan bíltúr. 

Í lífinu er það oft þannig að við komumst ekki í dýragarðinn. Við náum ekki markmiðinum okkar, eða komumst að því þegar við náum þeim að þau skipta okkur ekki eins miklu máli og við héldum. Þá er betra að hafa haft gaman af bíltúrnum. Fólkið hjá Hertz hefur rétt fyrir sér: It‘s the journey, not the destination!

Tuesday, May 29, 2012

RAUNveruleikinn


Við stundum veruleikaflakk á hverjum degi. Við vöknum, kíkjum á I-Phone-inn og gáum hvort einhver ný skilaboð bíði okkar. Tékkum á facebook og meilboxinu. Þar með höfum við heimsótt marga veruleika áður en við förum framúr. Trítlum svo í eldhúsið og fáum okkur morgunmat og kveikjum á tölvunni til að skoða fréttir. Mbl, Eyjan, Vísir, Guardian, New York Times....Við þeytumst úr einum veruleika í annan, heimshorna á milli, með því að smella músinni. 

Margt af því sem við upplifum í þessum veruleikum vekur tilfinningaleg viðbrögð- ótta, samúð, reiði eða hlátur. Við keyrum í vinnuna með útvarpið í gangi, sitjum svo og svörum tölvupóstum,  símtölum, kíkjum á netið....veruleikaflakkið heldur áfram. Komum heim á kvöldin, horfum á fréttirnar, svo á sjónvarpsþætti og erum jafnvel á netinu á sama tíma (er nokkur furða að veruleikafirring sé útbreitt vandamál?) 

Allt sem mætir okkur í þessum veruleikum er hannað til að draga athygli okkar markvisst frá RAUNveruleikanum, oftast í því skyni að selja okkur eitthvað. Flestir afþreyinga- og fréttamiðlar fjármagna sig með auglýsingatekjum. Þeir bjóða því upp á efni sem hefur hámarksafþreyingargildi og er því líklegt til að fá áhorf, sem svo skilar tekjum. Þetta þýðir því miður að oft missum við alfarið af RAUNveruleikanum á þessu veruleikaflakki okkar. Við förum í gegnum heilu dagana hálfsofandi, af gömlum vana og án þess að tengja  nokkurntíman við RAUNveruleikann. RAUNveruleikinn er það sem er að gerast NÚNA. Hættu að lesa í augnablik eftir næstu málsgrein og gerðu þessa æfingu:
----------
Láttu hendurnar hvíla borðinu fyrir framan þig. Finndu fyrir borðinu, hitastigi og áferð. Hlustaðu. Hvaða hljóð heyrir þú? Getur þú greint fleiri en þrjú umhverfishljóð? Taktu eftir líkamsstöðunni sem þú ert í. Er hún þægileg? Er þér kalt eða heitt? Renndu tungunni um munninn á þér. Hvaða bragð finnur þú. Dragðu andann djúpt. Finndu fyrir loftinu í nefinu þegar þú andar djúpt og hægt ofan í lungun. Brostu og finndu hvernig munnvikin og kinnarnar lyftast.
----------
Velkomin aftur. Þetta var RAUNveruleikinn: Það sem við skynjum þegar við drögum niður í útvarpinu í kollinum á okkur. Þar er gott að vera. Hann er uppspretta jafnvægis og gleði. En einungis ef við dveljum þar annað slagið. Við getum tengd við RAUNveruleikann hvenær sem við viljum með því að beina athygli okkar að skilningavitunum. Samstundis lækkar streitustigið og við erum minnt á að ÞETTA augnablik er allt sem er. Ekki hafa áhyggjur af því að lenda í því sem aumingja maðurinn á myndinni að ofan er að upplifa. RAUNveruleikinn er málið!

Friday, May 25, 2012

Að vera opinn

Lemúrinn er þessa dagana staddur í Arabaheiminum. Þar er margt spennandi að sjá og upplifa og synd að segja ekkert nýtt beri fyrir augu, eyru, nef og bragðlauka. Það getur verið ógnvænlegt að upplifa svona ólíkt umhverfi og ekki óalgengt að fólk fái einhverskonar menningarsjokk þegar stokkið er inn í svona ólíkan menningarheim. Lemúrinn hefur ekki orðið fyrir neinum áföllum af þessu tagi. Ég hef passað mig vandlega á því að vera eins opinn og afslappaður og ég get. Tek því sem ber að höndum og er ekki að stressa mig á því þótt ég skilji ekki fullkomlega það sem ég er að upplifa. Þetta virðist vera nálgun sem virkar vel.

Með því að mæta öllu af yfirvegun, vinsemd og virðingu þá minnkar stressfaktorinn ótrúlega mikið. Ég mæli eindregið með þessari nálgun í hvert skipti sem farið er út fyrir hina þægilegu og fyrirsjáanlegu rútínu daglegs lífs: Ekki svekkja þig á því sem er EKKI. Njóttu þess sem ER!

Salam alaikum!

Thursday, May 17, 2012

Kviksyndi

Tilfinningar vefjast oft fyrir okkur. Okkur finnst sumar þeirra eftirsóknarverðar en aðrar ekki. Sumar tilfinningar þykir okkur mjög óþægilegt að upplifa, t.d. reiði, ótta og kvíða. Við gerum allt sem við getum til að forðast þessar tilfinningar og losna við þær þegar þær láta á sér kræla. Oft förum við að kafa í ástæður þess að við finnum ákveðnar tilfinningar. Kryfjum tilfinningarnar til mergjar. Útkoman er sjaldnast gagnleg. Við getum jafnvel endað í súpu tilfinninga þar sem ást veldur okkur kvíða, kvíði veldur okkur depurð, ótti veldur okkur kvíða....

Sannleikurinn er sá að tilfinningar eru eðlilegur hluti af því að vera manneskja. Þær eru arfur þúsunda kynslóða sem á undan okkur komu. Það virkar sjaldnast að bæla þær eða ráðast gegn þeim.

Betri aðferð til að díla við tilfinningar er að nálgast þær eins og kviksyndi. Ef þú lendir í kviksyndi áttu alls ekki að brjótast um. Það flýtir einfaldlega fyrir því að þú sökkvir. Leiðin til að lifa kviksyndið af er að slaka á, hætta að brjótast um og láta sig fljóta.

Sama strategía virkar vel á tilfinningar. Ekki berjast gegn þeim. Veittu þeim athygli og viðurkenndu tilvist þeirra. Það dregur oftast úr þeim kraftinn og þær líða hjá. Andaðu á sama tíma djúpt og reyndu að slaka á. Láttu þig fljóta!

Monday, May 14, 2012

Andspyrna

Öllum hættir okkur til að taka þátt í andspyrnuhreyfingunni. Við streitumst á móti veruleikanum og neitum að viðurkenna hann eins og hann er. Ágætt dæmi um þetta er þegar við svekkjum okkur á veðrinu. Það er fullkomin sóun á tíma og orku. Veðrið er eins og það er. Ekkert sem við segjum eða gerum breytir því.

Það sama á við um hugsanir okkar og tilfinningar. Við berjumst gegn þeim (Mér Á ekki að líða svona! Af hverju er ég svona latur?!.....). Stundum reynum við að beina athyglinni að einhverju öðru til að bæta líðan okkar, fáum okkur að borða, horfum á sjónvarpið eða förum á netið. Á meðan krauma huganir og tilfinningar undir niðri og brjótast jafnvel fram með enn meiri krafti þegar afþreyingin hættir að virka.

Leiðin út úr þessu er að beina athyglinni að því sem er að angra okkur og nota aðferðirnar sem ég lýsti í síðasta pósti. Munum að hugsanir eru bara orð í huganum. Þær eru ekki endilega réttar eða rangar. Horfum á þær eins og þær eru og þær glata mætti sínum.

Þetta er eina raunhæfa leiðin fram á við: Að átta sig á því hvar maður stendur og kortleggja leiðina fram á við frá þeim punkti. Ef við streitumst stöðugt gegn veruleikanum, þá er erfitt að rata rétta leið og komast í skjól.

Segjum okkur því úr andspyrnuhreyfingunni. Hún mun nefnlega ekki vinna stríðið.